145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[18:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fyrst forseta finnst lítið koma til þess boðs míns að fresta ræðu minni um rúman hálfan mánuð hlýt ég eins og stalla mín, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, að gera kröfu til þess að hæstv. ráðherra hlusti á orð mín og sé í þingsal. Kannski hefur hann einhverjar athugasemdir við eitthvað af því sem ég mun segja. Ég óska þess að sjá framan í ráðherrann þennan síðasta klukkutíma sem við erum í húsi því að ekki hefur hann sýnt sig síðan rétt eftir að hann lauk ræðu sinni hér fyrr í dag.