145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[19:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega það. Athugasemdirnar með frumvarpinu og greinargerðin er svolítið ruglingsleg. Stýrihópur var skipaður í nóvember og við vitum það náttúrlega bæði, ég og hv. þingmaður, við erum eldri en tvævetur, að það er stuttur tími til að búa til frumvarp. Ég efast ekki um að það sé hægt en samráðið verður ekki mikið og yfirleitt vinnur stjórnsýslan ekki svona hratt nema við mjög afbrigðilegar aðstæður. En ég sá að á bls. 13 í athugasemdunum stendur: Hagsmunaaðilar vöktu athygli stýrihópsins á þörf á aukinni samhæfingu í starfsemi minjaverndar og minjavörslu.

Ég áttaði mig ekki alveg á þessu. Er þetta stýrihópurinn sem var skipaður í nóvember eða er þetta stýrihópurinn sem var skipaður 2013 til að fara yfir að stjórnsýsluna alla? Ég átta mig ekki á því. Það er margt svona sem er ruglingslegt í þessu. Ég spurði hæstv. ráðherra hvaða hagsmunaaðilar þetta hefðu verið sem vöktu athygli (Forseti hringir.) hans eða stýrihópsins á þessu. Hann sagði að þeir hefðu talað við Capacent. (Forseti hringir.) Ég held að við ættum að fá að tala við Capacent (Forseti hringir.) fyrst forsætisráðherrann vill ekki koma.