145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Fréttir dagsins, ekki bara hér á Íslandi heldur í heiminum öllum, eru þær að það er einn vestrænn þjóðarleiðtogi á lista yfir þá stjórnmálaleiðtoga sem geyma fé í skattaskjólum og það er hæstv. forsætisráðherra Íslendinga. Það er ekki skrýtið að Íslendingar séu vonsviknir í dag því að það hefur orðið alvarlegur trúnaðarbrestur milli ráðamanna og almennings í þessu landi. Alþingi Íslendinga þarf að ræða það hvernig við og íslenskt samfélag ætlum að takast á við þennan alvarlega trúnaðarbrest, að hæstv. forsætisráðherra valdi ekki aðeins að geyma fjármuni fjölskyldu sinnar í skattaskjóli heldur kaus líka að leyna því. Vissulega tek ég undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni, það hefði farið betur á því ef hæstv. forsætisráðherra hefði af sjálfsdáðum komið fram með skýrslu og skýringar á sínu máli. En kannski er orðið of seint fyrir skýringar eftir það viðtal sem hæstv. forsætisráðherra veitti (Forseti hringir.) í fjölmiðlum í dag og sýndi þar litla auðmýkt í kringum þetta mál. Kannski er orðið of seint fyrir skýringar, virðulegi forseti.