145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:14]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Það eru þung skref að ganga til þings í dag. Íslensk stjórnmál eru í alvarlegri kreppu. Eftir hrunið 2008 myndaðist sátt um allt samfélagið um að við skyldum byggja okkur upp, láta trúverðugleika og heiðarleika vera okkar merki, reyna að endurvinna trúverðugleika í augum heimsins eftir það sem á undan var gengið. Það sem hefur komið í ljós síðustu daga og ekki síst í gær er að það voru ekki allir með í þeirri ferð. Leyndarhyggja hefur grafið um sig hjá æðstu ráðamönnum þjóðarinnar. Þetta er grafalvarleg stjórnarkreppa sem við erum í. Ég hlýt að taka undir að það sé mjög óeðlilegt að hefja þingfund án þess að hæstv. forsætisráðherra gefi skýrslu (Forseti hringir.) um þessa dæmalausu stöðu í íslenskum stjórnmálum. Þetta er erfið staða, ekki bara fyrir hæstv. forsætisráðherra og fyrir okkur þingmenn, hvar í flokki sem við sitjum, heldur þjóðina alla.