145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:18]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það kann að vera rétt að það sé of seint fyrir skýringar. Það kann að vera rétt í ljósi viðbragða hæstv. forsætisráðherra, sem tekur viðtöl við sjálfan sig og velur sér fjölmiðla til að tala við, að ekki sé við því að búast að Alþingi Íslendinga fái skýringar frá honum. En það er Alþingis að taka afstöðu til þess hvort ástandið sé viðunandi, það er Alþingis að taka afstöðu til tillögu um vantraust, til tillögu um þingrof og tillögu um kosningar.

Hæstv. forsætisráðherra hefur tíma til að stíga til hliðar, ríkisstjórnin hefur tíma til að pakka saman áður en kemur að afgreiðslu þessarar tillögu.

Virðulegi forseti. Það er löng leið fram undan fyrir Ísland til að endurreisa traust okkar á okkur sjálf, umheimsins á Ísland. Það hljóta allir Íslendingar að hafa áhyggjur af þeirri stöðu sem upp er komin og er á ábyrgð núverandi ríkisstjórnarflokka.