145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:22]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Maður átti von á því að hæstv. forsætisráðherra sæi sóma sinn í því að leggja fram afsagnarbeiðni fyrir upphaf þessa þingfundar. Það hefur hann ekki gert. Hinn möguleikinn hefði verið til þrautavara að hann væri þá tilbúinn hér með skýrslu til að gefa þinginu og standa fyrir máli sínu. Það er heldur ekki í stöðunni.

Þetta er þyngra en tárum taki, sú staða sem er uppi núna, það siðrof sem orðið er í stjórnmálunum, og það er því miður eins og hæstv. forsætisráðherra ætli að draga þjóðina niður með sér, orðspor þjóðarinnar. Það er auðvitað grafalvarlegt mál, sá álitshnekkir sem við höfum orðið fyrir á alþjóðavettvangi vegna atbeina forsætisráðherrans. Hvaða þýðingu mun það hafa fyrir atvinnulíf þjóðarinnar, efnahagslíf þjóðarinnar, viðskiptasamninga okkar, sá álitshnekkir sem nú er orðinn? Var nú ekki á bætandi, nú þegar við (Forseti hringir.) vorum að rísa upp úr svaðinu eftir hrunið.

Ég skora á hæstv. forsætisráðherra að sjá sóma sinn í því að segja af sér áður en þessi dagur er að kvöldi kominn.