145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég horfði á hinn magnþrungna Kastljóssþátt í hópi Íslandsvina í Þórshöfn í Færeyjum í gærkvöldi. Þetta er einhver hörmulegasta landkynning sem ég hef orðið vitni að og er dapurlegra en orð fá lýst að landið sé aftur á alþjóðavettvangi komið í það kastljós sem raun ber vitni og forsætisráðherra okkar í þennan félagsskap. Vinum okkar þar í Færeyjum sem og örugglega alls staðar annars staðar var ekki skemmt. Þeir fundu til yfir því að Ísland birtist umheiminum með þessum hætti.

Ég tel að fyrstu viðbrögð og lágmarksviðbrögð við þessu séu að forsætisráðherra segi tafarlaust af sér. Svo þarf að ræða framhaldið, hvernig má að öðru leyti vinna úr þessari dapurlegu stöðu. Eða eigum við að hugleiða aðstöðumuninn, í hvaða stöðu Ísland er borið saman við Frakkland þar sem François Hollande fagnar upplýsingalekanum, hrósar rannsóknarblaðamönnunum og lofar því að þessi gögn verði nýtt til að elta uppi þá sem nýti sér skattaskjól? (Forseti hringir.) Í hvorri stöðunni vildum við vera sem þjóð?