145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:31]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hefur komið fram að auðvitað liggur fyrir að forsætisráðherra verður að segja af sér.

Ég hafði ekki hugmyndaflug í það að þingfundur yrði með þessu sniði. Ég hélt að hæstv. forsætisráðherra mundi taka þetta skref fyrir þingfund.

Mér finnst þetta snúast að miklu leyti um trúverðugleika okkar sem þjóðar. Ef hæstv. forsætisráðherra ætlar að sitja áfram þarf hann að gera sér grein fyrir því að hann skaðar Ísland. Hann veldur óróa og óánægju meðal þjóðarinnar. Hann hlýtur að spyrja sig hvort það sé þess virði. Embættið er ekki hans. Ráðherrastóllinn er ekki hans.

Þetta eru ótrúlegir tímar. Maður sá þetta ekki fyrir þegar maður kom inn á þing.

En ég vil taka undir ítrekanir til hæstv. ráðherra að segja af sér hið fyrsta, vegna þess að hver mínúta sem líður er pínleg.