145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:36]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er dapurlegur dagur, það er eiginlega ekki hægt að komast öðruvísi að orði. Það erum ekki bara við sem hér stöndum sem lýsum áhyggjum okkar yfir afstöðu forsætisráðherra gagnvart embættinu og sjálfum sér heldur er stór hluti þjóðarinnar nú þegar búinn að lýsa því, m.a. á miðlum víðs vegar. Það er einhvern veginn ekki eitt, það er allt sem er undir.

Það er alvarlegast, finnst mér, að hæstv. forsætisráðherra telur það í lagi að geyma fé í landi sem hefur verið flokkað sem skattaskjólsland, alveg sama hversu oft (Gripið fram í.) hæstv. ráðherra tönnlast á því að hann hafi ekki ásamt konu sinni geymt fé í skattaskjólslandi. Það er bara ekki hans að ákveða hvaða land fellur undir slíka skilgreiningu.

Barátta þjóða við að uppræta slíkt er í algleymingi. Á meðan kýs íslenska ríkisstjórnin að vera bendluð við slíkt. Við getum ekki sætt okkur við þetta, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, við verðum að rjúfa þing og efna til kosninga og hæstv. forsætisráðherra á auðvitað að sjá sóma sinn í því að stíga til hliðar, þjóðinni til heilla.