145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:41]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Undir aldarlokin og í byrjun þessarar aldar voru ítrekað gerðar markvissar tilraunir til að koma á skattleysissvæðum á Íslandi. Markvissar, segi ég. Já. Þáverandi ríkisstjórn ákvað að verja 50 millj. kr. í samstarfsverkefni Viðskiptaráðs, eða Verslunarráðs eins og það hét þá, og stjórnvalda til að koma á slíkum skattasvæðum. Þessu var mótmælt hér í þessum sal. Og OECD mótmælti að sama skapi. En lengi lifði í þessum glæðum og ég minnist þess að hafa fengið fréttir af ráðherra sem hélt eldheita ræðu í Hörpu, yfir silkiklæddum bankamönnum, þar sem hann hvatti til þess að Ísland yrði að slíkri fjármálamiðstöð í heiminum. Af því varð ekki. Hins vegar er ljóst að íslenskir ráðamenn hafa stigið fæti inn í þetta fjármálaumhverfi og meira en það, sest þar að. Það á við um forustumenn beggja ríkisstjórnarflokkanna. (Forseti hringir.) Það er staðreynd. Það hefur líka komið í ljós að Íslendingar tengjast 800 af aflandsfélögunum. Ég segi bara þetta: Það er kominn tími til að byrja upp á nýtt, (Gripið fram í.) bæði í þessum sal og í þjóðfélaginu almennt. Það verður gert með því einu að ríkisstjórnin fari frá og við fáum kosningar hið fyrsta.

(Forseti (EKG): Forseti minnir hv. þingmann á að virða tímamörk.)