145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er engin tilviljun að vestræn lýðræðisríki hafa tekið höndum saman á undanförnum árum og alla þessa öld á vettvangi OECD og í nærtækara samhengi á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar um að berjast gegn tilvist skattaskjóla, tilvist aflandseyja, því að tilvist skattaskjóla grefur undan því sem við köllum í daglegu tali velferðarsamfélög, hún grefur líka undan lýðræðinu. Samfélög okkar byggjast á lýðræðinu og því að við tökum öll þátt í samfélaginu og höfum öll áhrif á samfélagið. Hvernig ætla íslenskir ráðamenn sem í þessari ríkisstjórn hafa skrifað undir skuldbindingar á vettvangi OECD að standa frammi fyrir sínum starfsbræðrum og -systrum á þessum vettvangi, þeim hópi sem við viljum tilheyra, hópi vestrænna lýðræðisríkja, og útskýra það að við höfum skrifað undir skuldbindingar (Forseti hringir.) um að útrýma skattaskjólum (Forseti hringir.) en séum svo óvart á kafi í þeim sjálf persónulega? Hvernig ætla íslenskir ráðamenn að gera þetta?