145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:46]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Það er með mikilli sorg í hjarta sem ég kem hingað upp undir þessum lið í dag, um fundarstjórn forseta. Það er mikil sorg í manni yfir því að átta árum eftir hrunið skulum við sitja hér á Alþingi með forsætisráðherra sem er algerlega rúinn trausti. Ég segi því miður. Ég ber engan kala til hæstv. forsætisráðherra, en traustið er það mikilvægasta sem nokkur stjórnmálamaður á eða nokkur maður á, því að traustið er það sem heldur samfélögum saman. Þegar það fer að bresta fer að molna undan samfélögunum. Það er nákvæmlega það sem er að gerast núna hjá okkur Íslendingum. Samfélagið er að molna í sundur. Ég skora á hæstv. forsætisráðherra að íhuga að segja af sér, ekki aðallega sín vegna heldur vegna fjölskyldu sinnar, þjóðarinnar allrar og ríkisstjórnarinnar og boða til kosninga. Það er það eina sem hægt er að gera í þessari stöðu því að þetta er ekki boðlegt, því miður. En ég ítreka að mikil sorg er í manni yfir þessum degi.