145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:56]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Mér verður hugsað til allra þingmanna á Alþingi Íslendinga, þessu elsta þingi í heimi. Það er sennilega stærsta stund okkar allra þegar við stígum inn í þennan sal fyrsta sinni og undirritum eið að stjórnarskrá Íslands þar sem við lofum að starfa af heiðarleika fyrir þjóðarhag. Við lofum að koma vel fram, viðhafa sannsögli í starfi okkar og að rísa yfir okkar eigin persónu sem fulltrúar almennings sem hafa kosið okkur hingað til starfa. Það er mér alveg sérstaklega mikil sorg í hjarta að upplifa það að hæstv. forsætisráðherra er að draga þessa tilfinningu í svaðið. Ég sé ekki hvernig fyrir hönd okkar alþingismanna að hæstv. forsætisráðherra sé sætt í embætti. (Forseti hringir.) Mér er það engin gleði að upplifa þessa tilfinningu. Ég finn til í líkamanum öllum eins og ég hafi orðið fyrir áfalli. (Forseti hringir.) Það er vond tilfinning. Og því miður, ég finn að fólk er að upplifa þessa tilfinningu um allt land.