145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[16:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ekki annað hægt en að hafa skilning á því að þingmenn stjórnarliðsins kjósi að þegja í þingsalnum við þessar aðstæður. Kannski færi best á því að við mundum öll þegja saman. Ég held að mörgum okkar líði þannig. Og þó að ég hefði viljað sjá forsætisráðherra flytja þjóðinni skýrslu, úr því að hann taldi sig hafa ástæðu til að sitja áfram í embætti þegar þessi fundur var settur, er kannski líka hægt að skilja það að hann sitji hér þögull og reyni að þegja sig í gegnum þetta. En það verður að segja við bæði hæstv. forsætisráðherra og alla þingmenn stjórnarliðsins að menn munu ekki þegja sig í gegnum þetta hneykslismál. Menn geta þagað í einn dag og þeir geta þagað í tvo daga og þeir geta þagað í (Forseti hringir.) þrjá daga en þeir munu ekki geta þagað sig í gegnum þetta. Þetta er allt of alvarlegt mál til þess. Forsætisráðherra þarf að axla sína ábyrgð.