145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

eignir forsætisráðherra í skattaskjóli.

[16:13]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra. Þjóðarheiður er núna í húfi. Heiður þessarar stofnunar, Alþingis Íslendinga, er í húfi. Við höfum verið stolt af því, Íslendingar, að státa okkur af fordæmalausri lýðræðishefð og elsta þjóðþingi í heimi. Nú er það sérkenni okkar í stjórnmálalegu tilliti á alþjóðavettvangi að eiga eitt Vesturlanda forustumenn með eignir í skattaskjóli.

Ætlar hæstv. forsætisráðherra að nota tækifærið hér og nú til að biðja þjóðina afsökunar á því að hafa sett hana í þá stöðu að vera stillt upp við hliðina á mörgum illræmdustu og harðsvíruðustu einræðisherrum heims? Og ætlar hæstv. forsætisráðherra að horfast í augu við veruleikann og segja af sér embætti?