145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

eignir forsætisráðherra í skattaskjóli.

[16:14]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þegar heiður þjóðarinnar og þessarar stofnunar sem Alþingi er er í húfi hljótum við öll að reyna að gæta að framgöngu okkar og taka mið af því að fylgst sé sérstaklega með því með hvaða hætti menn ganga fram. Við hljótum öll að vilja ræða málin af yfirvegun, heiðarlega og af skynsemi, ég tala nú ekki um sanngirni. Það mun ég reyna að gera, virðulegur forseti, um þetta mál, en hins vegar get ég ekki látið hjá líða að gera athugasemd við það að hv. þingmaður haldi því hér ranglega fram eina ferðina enn að ég eða eiginkona mín höfum átt eignir í skattaskjóli. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Þetta er alrangt. Það hafa verið greiddir skattar af þessum eignum frá upphafi eins og hv. þingmaður þekkir. Og af því að hér er vísað í erlenda fjölmiðla vil ég segja þeim mörgum til hróss að þar er sérstaklega getið um að ekkert bendi til þess að rangt hafi verið haft við eða stungið undan skatti í þessu máli. Við hljótum að vera sammála um það almennt í þessum sal að mikilvægt sé að menn nýti það tækifæri sem er núna víða um lönd einmitt til þess að koma í veg fyrir skattundanskot, til þess að uppræta raunveruleg skattaskjól.

Ýmis lönd hafa verið kölluð skattaskjól. Svíþjóð hefur verið nefnd skattaskjól vegna þess að þar hafa menn geymt fjármagn án þess að gefa það upp í heimalandi sínu. Eins og einn hv. þingmaður sagði hér í umræðu um fundarstjórn forseta áðan eru skattaskjól ekki skilgreind eftir því hvaða land er um að ræða heldur hvort menn greiði raunverulega alla skatta af þeim eigum sem þeir eiga að greiða af og greiði (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) til síns samfélags, virðulegur forseti, greiði skatta til síns samfélags.