145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

eignir forsætisráðherra í skattaskjóli.

[16:16]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þykir enginn sómi að því að hæstv. forsætisráðherra leiti skjóls hvort heldur er í skattaskjóli eða skýli sér á bak við konu sína. Þetta mál snýst ekki um hana. Þetta snýst um ákvarðanir sem hann hefur tekið, upplýsingar sem hann hefur leynt og lög sem hann hefur í besta falli gengið á svig við. Þetta eru staðreyndir málsins. Það skilja hundruð fréttamanna sem eru að vinna í þessu máli þessar mínúturnar. Ég ítreka spurninguna til hæstv. forsætisráðherra og bæti við: Skammast hann sín ekki fyrir að hafa komið Íslandi í þennan hóp? Hyggst hann ekki biðjast afsökunar á því í það minnsta?