145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

orð forsætisráðherra í sjónvarpsviðtali.

[16:19]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í gær horfði íslenska þjóðin á viðtal við hæstv. forsætisráðherra þar sem hann var spurður beint út hvort hann hefði einhver tengsl við aflandsfélög. Viðtalið má lesa uppskrifað í íslenskri þýðingu á mbl.is fyrir þá sem ekki sáu það í gær. Hæstv. forsætisráðherra sagði þar að hann hefði starfað hjá íslenskum fyrirtækjum sem kynnu að hafa haft tengsl við aflandsfélög. Nefndi svo að það ætti jafnvel við um verkalýðshreyfinguna, sagði síðan að þetta væri óvenjuleg spurning. Þá var hæstv. forsætisráðherra spurður beint út hvað hann gæti sagt um fyrirtækið Wintris. Hæstv. forsætisráðherra sagði:

„Umm, það er fyrirtæki, ef ég man það rétt, sem er tengt við eitt þeirra fyrirtækja sem ég gegndi stjórnarmennsku í og það hafði viðskiptareikning, sem eins og ég minntist á, hefur verið talinn fram á skattskýrslu frá því það var stofnað.“

Mig langar bara að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Af hverju sagðirðu ekki að konan þín ætti Wintris? Af hverju sagðirðu þetta bara ekki eins og þetta er? Af hverju sagðirðu ekki bara satt í þessu viðtali?