145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

hagsmunaskráning þingmanna og siðareglur.

[16:25]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Reglur um hagsmunaskráningu þingmanna eru að sjálfsögðu almennar. Það liggur fyrir og hefur reyndar verið umtalsvert rætt á síðustu dögum að ég hafi fylgt þeim reglum. Það liggur fyrir að ekki er gert ráð fyrir því að skráðar séu eignir maka, en það liggur líka fyrir að ekki er gert ráð fyrir því að skráðar séu eignir á borð við skuldabréf.

Svo má velta því fyrir sér, virðulegur forseti, hvort ég hefði átt, ólíkt öllum öðrum þingmönnum, að gera sérstaklega grein fyrir eignum konu minnar eða gera sérstaklega grein fyrir öðrum eignum en gert er ráð fyrir að séu skráðar í hagsmunaskráningu þingmanna.

Það má vel vera, ég skal viðurkenna það, að við eigum að velta því fyrir okkur hvort ástæða sé til að skrá meira en nú er gert, skrá jafnvel eignir maka, skrá skuldir, skrá ýmislegt fleira.

En aðalatriðið, virðulegur forseti, er að það liggur fyrir að reglunum var fylgt og að aðilar, sem hafa vissulega ekki bara átt fjölskylduhagsmuni undir heldur mikla eigin hagsmuni í þeim miklu ákvörðunum sem teknar hafa verið hér síðustu árin, hafa ekki séð ástæðu til þess að gera sérstaklega grein fyrir þeim — vonandi, virðulegur forseti — umfram það sem kveðið er á um að skuli gera samkvæmt hagsmunaskráningu þingmanna.

En ég ítreka að ég er opinn fyrir því að ræða alla möguleika á að útvíkka þessa skráningu og meta það með þingmönnum hvað sé ástæða til þess að skrá og hvað ekki og hvort að þau mál sem við höfum verið að ræða í dag leiði þetta mál í nýtt ljós og gefi okkur tilefni til þess að útvíkka skráninguna.