145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

viðbrögð ráðherra við álitshnekki Íslands.

[16:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín varðar að sjálfsögðu málið sem við höfum rætt í allan dag. Nú getur varla verið mjög umdeilt að Ísland hefur beðið álitshnekki erlendis vegna fréttaumfjöllunar um mál hæstv. forsætisráðherra. Burt séð frá því hvernig hæstv. ráðherra svarar þingmönnum hér heima fyrir velti ég fyrir mér hvort hann telji nauðsynlegt að bregðast einhvern veginn við þeim álitshnekki og þá sér í lagi hvernig hann hyggst gera það ef hann telur þörf á því. Mér þætti mjög vænt um að fá einhver svör við því hvernig hæstv. ráðherra hyggst beita sér fyrir því að erlendir aðilar skilji betur hvernig það sem hefur komið fram hér getur verið eðlilegt en ekki hneykslanlegt eins og þykir þar. Allt sem hæstv. ráðherra getur frætt mig um í þeim efnum er mjög vel þegið. En til að hafa spurninguna alveg skýra: Telur hæstv. ráðherra þörf á því að bregðast við þeim álitshnekki sem Ísland hefur orðið fyrir erlendis? Og ef svo er: Hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við?