145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

upplýsingar og skilgreining á skattaskjólum.

[16:37]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég fá tækifæri til að taka fram að ég hef í þessu máli ekki verið að skýla mér á bak við konuna mína. Það er öðru nær. Ég hef reynt og reyndi framan af, og kannski er það eitt sem ég ætti að biðjast afsökunar á, og reyndi of lengi að halda málefnum hennar utan við hina pólitísku orrahríð. Ég tel, virðulegur forseti, að það hafi verið augljóslega eftir á að hyggja óhjákvæmilegt að ræða eignir hennar og fjármál fyrr þó að ég hafi haft það sem meginprinsipp frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum að blanda ekki eiginkonu minni eða fjölskyldu í þessa orrahríð.

Hvað varðar skattaskjólsfullyrðinguna bendi ég einfaldlega á það, virðulegur forseti, sem ég benti á áðan, að skattaskjól er það þegar menn leyna eignum til þess að forða þeim frá sköttum. Mörg lönd hafa verið nefnd skattaskjól, Panama, Jómfrúreyjar, Bretland sem stundum er nú sagt skattaskjól, Kýpur. Það er endalaus listi, virðulegur forseti, yfir lönd sem hægt er að nefna skattaskjól. Ekki alls fyrir löngu ræddum við mikið um að Svíþjóð væri orðið eitt helsta skattaskjól Evrópu vegna þess að menn kæmust upp með að fela þar eignir.

Spurningin er hvort menn nýta tækifæri í Svíþjóð eða Jómfrúreyjum eða einhvers staðar annars staðar til þess að fela eignir eða hvort þeir gefa þær heiðarlega upp og borga af þeim skatt. Þeirri spurningu hefur verið svarað í þessu máli.

Aftur að spurningunni um eignarhald mitt, ég reyni að útskýra það aftur fyrir virðulegum þingmanni: Eignirnar í þessu félagi lágu alltaf hjá eiginkonu minni hvað sem leið skráningu hjá þessu umsýslufyrirtæki vegna þess að hún lagði eignirnar inn í félagið og fékk jafn háa kröfu á móti.