145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[16:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er nú orðið ljóst að hæstv. forsætisráðherra hefur fært hér fram allra handanna skýringar sem eru allt frá því að Svíþjóð sé eitt alræmdasta skattaskjól í heimi yfir í skýringar sem hann hefur ekki verið tilbúinn til að staðfesta við fjölmiðla hingað til. Við höfum heyrt skattrannsóknarstjóra segja á fundi að engin leið sé að staðreyna staðhæfingar hans um að allir skattar hafi verið greiddir nema að menn upplýsi hlutina og opni fyrir allar upplýsingar. Það hefur ekki verið gert. Fyrirspurnum fjölmiðla þar um hefur ekki verið svarað.

Það er líka ljóst af yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra sjálfs sem hann skrifaði sjálfur af eigin fúsum og frjálsum vilja að hann tók yfirvegaða ákvörðun um að leyna samstarfsmenn sína, Alþingi Íslendinga og þjóðina, hagsmunum sínum. Hann kaus að gera það ekki vegna þess að hann taldi betra að gera það ekki. Hann vissi með öðrum orðum að honum kynni að bera að gera það en tók yfirvegaða ákvörðun um að gera það ekki. Allt þetta kallar á (Forseti hringir.) að Alþingi Íslendinga fari með dýpri hætti yfir þetta mál. Það er ekki hægt fyrir forsætisráðherra að koma hér (Forseti hringir.) og bera fram staðhæfingar sem ekki standast á nokkurn hátt út frá almennum yfirlýsingum sem hann hefur gefið.