145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[16:55]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra hafði tækifæri hérna áðan til að gefa skýringar, jafnvel biðjast afsökunar, en hann nýtti ekki það tækifæri. Nú er hæstv. forsætisráðherra farinn úr salnum og raunar meiri hluti þingmanna stjórnarliðsins líka. Við sitjum uppi með það að á Alþingi er umræðan nánast eins og súrrealískt leikrit þar sem hæstv. forsætisráðherra leyfir sér að koma hér upp og tala um að Svíþjóð sé skattaskjól — vafalaust á það enn eftir að bæta orðspor okkar í útlöndum þegar vitnað verður til þeirra orða — og lætur eins og hann hafi ekki heyrt um þann opinbera lista sem gefinn er út um skattaskjól og hvað það merkir. Við getum ekki einu sinni orðið sammála um merkingu orðanna hér. Þegar spurt er af hverju er ekki einfaldlega sagt satt er svarað: Ja, ég komst í svo mikið óðagot að ég vissi eiginlega ekki hvað ég átti að segja. (Forseti hringir.) Þá er umræðan komin á villigötur og ég hef mjög miklar áhyggjur af því, herra forseti, hvernig Alþingi (Forseti hringir.) ætlar að takast á við svona umræðu þar sem hverri fyrirspurninni á fætur annarri er svarað út í hött.