145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:01]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Úti á Austurvelli sést hvergi í auðan blett. Hann er troðfullur af fólki sem er fullkomlega misboðið, sem vill fá breytingar, sem vill fá heiðarlega stjórnmálamenn, sem vill fá kosningar. Þetta fólk segir núverandi stjórnarflokkum að hypja sig. Það sættir sig ekki við þau svör sem það hefur fengið á síðustu vikum, enda eru þau algerlega ófullnægjandi. Það er svo mörgum spurningum ósvarað enn þá eftir daginn í dag. Það er auðvitað þess vegna sem við erum að ræða málin undir þessum lið. Það er réttur okkar og nauðsynlegt að gera það. Við þurfum að fá svör við því hvernig krónan er besti gjaldmiðillinn — en ekki fyrir hæstv. forsætisráðherra. Það hefur ekkert verið talað um það hvernig allir urðu að undirgangast gjaldeyrishöft — en ekki hæstv. forsætisráðherra. (Forseti hringir.) Og þær hártoganir sem hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) bauð upp á hér í dag eru fyrir neðan allar hellur. (Forseti hringir.) Þær sýna að það er engin auðmýkt, það er ekkert nema hroki í hæstv. forsætisráðherra.