145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég sætti mig ekki við að Íslandi sé stjórnað af Tortóluelítunni.

Við sitjum uppi með það að í ljós hefur komið að ráðamenn þjóðarinnar hafa falið eignir sínar eða verið uppi með áform um að fela eignir sínar í skattaskjólum. Það eru aðstæður sem við getum ekki búið við nema við ætlum að hætta að kalla okkur lýðræðissamfélag og skipa okkur endanlega á lista með ríkjum eins og Rússlandi og Úkraínu.

Hér er 38 manna meiri hluti. Ekki einn stjórnarliða hefur risið upp til varnar Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, hæstv. forsætisráðherra, enda leyndi hann hagsmunum sínum og sagði ósatt varðandi eignarhlut sinn í fyrirtækinu á Tortólu. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að (Forseti hringir.) ekki verði boðað til fundar fyrr en vantrauststillaga (Forseti hringir.) stjórnarandstöðunnar verður komin á dagskrá. (Forseti hringir.) En vonandi verður hæstv. forsætisráðherra búinn að segja af sér fyrir þann tíma.