145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:08]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Hann er rokinn eins og svo oft, væntanlega hlaupinn í skjól, skattaskjól, freistandi að segja það í ljósi umræðunnar. Af hverju er fólk reitt? Af hverju á maður sjálfur í vandræðum með að hafa hemil á skapi sínu hér?

Hæstv. forsætisráðherra græddi á hruninu. Hann var með sinn pening í erlendri mynt og þegar gengið féll um helming þá græddi fjölskylda hans. Var hann að segja okkur frá því? Nei, nei, hann pósaði hér sem sérlegur fulltrúi heimilanna í landinu og vændi aðra um að vera það ekki. Við vorum að gera upp gömlu búin hér, fullt af fólki í þessum sal og annars staðar. Hann var ekkert að segja frá því að fjölskylda hans væri einn af kröfuhöfum í öll búin. Sagði ekkert frá því. Hann segir núna að skattaskjól séu ekki skattaskjól. Vill hann prófa að láta þann skít fljúga gagnvart til dæmis þýskum stjórnmálamönnum? Það er enginn þýskur stjórnmálamaður á þessum lista. (Forseti hringir.) Það kom fram í þættinum í gær. Af hverju ekki? Vegna þess að þetta er svo rosalega siðferðilega rangt að hafa auð sinn falinn (Forseti hringir.) í einu af þessum skattaskjólum. Það veitir mönnum fullkomið sjálfdæmi um það hvort þeir gefa upp til skatts eða ekki. (Forseti hringir.) Þannig þjóðfélag gengi auðvitað ekki upp ef allir gerðu það.