145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að gæta þyrfti að heiðri þjóðar og Alþingis vegna þess að fylgst væri með því sem hér væri sagt og gert. Þá átti hæstv. forsætisráðherra við hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, að þeir þyrftu að gæta sín. Hann telur sig ekki hafa gert neitt rangt; þó að hann hafi leynt því að hann geymdi umtalsverðar fjárhæðir í skattaskjóli, þó að hann hafi ekki skrifað og gert grein fyrir því í hagsmunaskráningu Alþingis haustið 2009, og þó að hann hafi selt sinn hlut til konu sinnar á einn dollar til að sleppa við skatta á árinu 2010. Hann hefur meira að segja verið vís að því að segja ósatt. Það er sjálfsögð krafa að hæstv. forsætisráðherra segi af sér og troðfullur Austurvöllurinn kallar á kosningar strax. Við tökum undir það hér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)