145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:18]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra er farinn úr húsi eftir því sem við best vitum. Hann sést alla vega ekki hér í salnum lengur. Við vitum það eitt að þegar hann hvarf okkur sjónum þá hafði hann hvorki sagt af sér embætti né léð á því máls að hann væri að hugleiða slíkt. Hvort hann er einhvers staðar núna að ræða við fjölmiðil sem hann hefur valið úr að eigin geðþótta vitum við ekki. En það er ljóst að við stjórnarandstöðuflokkarnir höfum lagt fram tillögu um vantraust og tillögu um þingrof og að gengið verði til kosninga strax.

Það er ljóst að núverandi ríkisstjórn situr í skugga leyndar og falinna hagsmuna. Það er ljóst að eðlileg þingstörf eru óhugsandi þangað til þessi þingrofstillaga verður tekin til umræðu hér á þinginu.