145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:20]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst rétt að við hugleiðum það aðeins núna hvað það var sem gerðist í dag. Fyrir utan þinghúsið safnast fólkið saman og hrópar á kosningar og ríkisstjórnina burt en forsætisráðherra sem mætti til fundar er farinn úr húsi eftir að hafa staðið hér og svarað út í hött. Eftir að hafa staðið hér og haldið áfram ósannindum og hártogunum, upplýst okkur um það að Tortóla sé ekki skattaskjól en það sé Svíþjóð hins vegar. Erlendir fjölmiðlar fylgdust með umræðunni. Hverjar verða fyrirsagnir þeirra fjölmiðla á alþjóðavettvangi eftir þennan skrípaleik sem átti sér hér stað? Málið versnaði eftir þessa svokölluðu samræðu í þingsal áðan og kannski ekki að furða þó að forsætisráðherra forði sér síðan út úr húsinu og veigri sér við því eins og allir stjórnarliðar, greinilega, að taka umræðuna, flestir stjórnarliðarnir.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Afsögn er auðvitað eina svarið eins og komið er. Það er útilokað að hér geti hafist eðlileg þingstörf í þessari viku fyrr en forsætisráðherra hefur sagt af sér.