145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:21]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hér sitjum við í þingsal, þingmenn stjórnarandstöðunnar. Þúsundir manna eru úti á Austurvelli og stjórnarþingmenn virða þetta fólk ekki viðlits. Þau taka ekki umræðuna.

Sigmundur Davíð, hæstv. forsætisráðherra, er bara farinn. Það er svo margt sem við eigum eftir að ræða. Við eigum eftir að ræða hvað það þýðir að sitja beggja vegna borðs þegar maður er kröfuhafi og svo þegar maður er að semja við kröfuhafa.

Þetta er grafalvarlegt mál. Það eru aðrir sem fara í fangelsi á Íslandi af því að þeir stunda markaðsmisnotkun.

Við þurfum að fá svör við þessu. Ég get ekki verið einhvern veginn að reyna að fylla í eyðurnar.

Æðsta ráðamanni þjóðarinnar er ekki stætt á því að standa ekki fyrir máli sínu hérna. Hann er farinn. Hann getur þá bara tekið þetta alla leið og sagt af sér af því að þetta gengur ekki.