145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:25]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er átakanlegt til þess að hugsa að það eru liðnar næstum því þrjár vikur frá því að hæstv. forsætisráðherra vissi að allar þær upplýsingar sem fram komu í viðtalinu sem sýnt var í Kastljósinu í gær mundu koma fram. Það er átakanlegt að hugsa til þess að á þeim tíma hafa forustumenn Framsóknarflokksins komið hingað í ræðustól á Alþingi og lýst því sem gríðarlegri ósvinnu að menn skyldu vilja ræða þessi mál. Á sama tíma hafa reyndir fjölmiðlamenn á borð við hv. þm. Karl Garðarsson talað um það opinberlega að Framsóknarflokkurinn væri greinilega óvinur ríkissjónvarpsins númer eitt. Það hlýtur að vera eðlileg krafa hjá okkur sem hér störfum að spyrja þessa sömu þingmenn hvort þeir líti svo á að Framsóknarflokkurinn sé óvinur númer eitt hjá fjölmiðlum allrar heimsbyggðarinnar. Að það sé bara þannig hjá Guardian í Bretlandi og Indian Times á Indlandi að menn vakni þar á morgnana og velti fyrir sér hvernig þeir geti nú komið Framsóknarflokknum fyrir kattarnef?