145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég spyr hæstv. forseta hvers vegna hæstv. fjármálaráðherra var ekki hér til svara á fundinum. Getur forseti upplýst mig um það?

(Forseti (EKG): Forseti gerir það í lok ræðu hv. þingmanns.)

Rætt hefur verið um hæstv. forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, frá því að þessi þingfundur hófst, en það er algerlega nauðsynlegt að draga það fram hér áður en fundinum lýkur að þessi fundur og þetta ástand og þessi staða Íslands er í boði Sjálfstæðisflokksins. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem styður Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem forsætisráðherra landsins og styður hann áfram við þessar aðstæður. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem hefst ekkert að þegar forsætisráðherrann er kominn í þessa stöðu. Það er kannski hægt að hafa skilning á því að maður í jafn hræðilegri stöðu og forsætisráðherrann yfir Íslandi er geti ekki horfst í augu við það sjálfur. En að Sjálfstæðisflokkurinn sjái ekki hver staðan er og skuli ekki taka ábyrgð (Forseti hringir.) á henni er grafalvarlegt mál. Þess vegna er þessi fundur í boði Sjálfstæðisflokksins.