145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þannig háttar til hér á Austurvelli núna að mótmælin eru þau fjölmennustu sem ég man eftir að hafa séð og hef ég setið á þingi alveg frá því í hruninu. Þetta toppar allt sem við höfum séð. Þetta eru yfirveguð og friðsamleg mótmæli en sýna alvöru málsins. Það verður að segjast eins og er að ábyrgð þessara stjórnarflokka er gríðarleg núna.

Menn hafa vitað af þessari tímasprengju í margar vikur og ekkert gert til að aftengja hana. Fyrir vikið er tjónið og orðsporstjónið fyrir Ísland og íslenskt samfélag orðið ómælt úti um allan heim. Aðgerðaleysi og sérgæska formanna stjórnarflokkanna er með slíkum eindæmum að þeir treysta sér ekki til að taka á þessu máli og leiða það í jörð þjóðinni til farsældar. Ég verð bara að lýsa yfir megnustu andúð (Forseti hringir.) á því að forusta þingsins skuli leyfa stjórnarmeirihlutanum að komast upp með svona framgöngu. (Forseti hringir.) Við verðum að verja þjóðina. Við verðum að verja lýðveldið en ekki að sætta okkur við að forustumenn stjórnarflokkanna hugsi bara um sig.