145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það vekur vissulega athygli að hæstv. fjármálaráðherra er ekki hér í landinu og menn geta dregið fram einhverjar afsakanir fyrir því sem mér finnst vera léttvægar. Í svona stóru og grafalvarlegu máli ætti hæstv. fjármálaráðherra auðvitað að vera á landinu og fara yfir hlutina og hjálpa forsætisráðherra til þess að taka þá ákvörðun að stíga til hliðar. En úr því sem komið er getur ekkert bjargað ríkisstjórninni vegna þess að hún hefur svo algerlega jarðað sig sjálf. Það er bara spursmál hvenær þessi ríkisstjórn verður borin út úr Stjórnarráðinu, því að hvorki stjórnarandstaðan né almenningur í landinu mun láta þessa spillingu og þessa forherðingu ganga yfir sig. Það er bara smjörþefurinn af því sem koma skal sem við sjáum úti á Austurvelli í dag. Mér finnst það með ólíkindum að hæstv. forsætisráðherra tali eins og hann sé (Forseti hringir.) ríkið. Það er svo mikill hroki sem kemur þar (Forseti hringir.) fram. Maður er auðvitað löngu búinn að sjá að honum (Forseti hringir.) er ekki viðbjargandi. Þá skulu stjórnarliðar (Forseti hringir.) segja: Keisarinn er í engum fötum, hann hefur enga vörn og hjálpa honum að komast úr þeirri stöðu sem hann er í.