145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þá kröfu margra annarra þingmanna sem hafa talað um að hér verði engin mál á dagskrá fyrr en búið er að ræða og greiða atkvæði um vantrauststillögu minni hlutans. Maður man nú eftir fyrri mótmælum en hefur sjaldan séð þau svona mikil eða hávær áður. Og það er ástæða fyrir því. Það er vegna þess að fólki er algerlega misboðið. Það er ekki að ástæðulausu. Það er ekki vegna þess að þessi hópur af fólki þarna úti misskilji eitt eða neitt heldur vegna þess að hegðun hæstv. forsætisráðherra er ekki í lagi. Hann þarf að koma því inn í hausinn á sér að hún er ekki í lagi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er ekki bara það hvernig er komið fyrir stöðu hæstv. forsætisráðherra í sambandi við hagsmuni hans, það er ekki bara það. Það er nógu slæmt. En það eru líka viðbrögðin, hvernig hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa látið eins og þingmenn minni hlutans hafi verið hér í einhverjum, með leyfi forseta, „skítaleik“, tilvitnun lýkur frá hæstv. utanríkisráðherra á sínum tíma. Eða fólkið hér á Austurvelli, er það í þeim leik? Ég held ekki, virðulegi forseti.