145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða stjórnvalda til skattaskjóla.

[11:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Kastljóssþáttur sunnudagsins varð til þess að það varð algjör trúnaðarbrestur milli almennings í landinu og ráðamanna þjóðarinnar. Sú staða sem upp er komin er að ríkisstjórnin er á undanhaldi. Forsætisráðherra, sem sagði fyrir tveimur og hálfum sólarhring að ríkisstjórnarsamstarfið stæði styrkum fótum, hefur stigið til hliðar og kosningum hefur verið flýtt. En trúnaðarbresturinn er enn til staðar. Það sem maður hefur séð hjá hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum stjórnarliðsins og þeim sem hafa tjáð sig um þessi mál eru ekki þau viðbrögð að fordæma þá staðreynd að Íslendingar virðast eiga heimsmet í tengslum við aflandsfélög og skattaskjól, ekki að fordæma þá staðreynd að kjörnir fulltrúar hafi verið að geyma eignir í skattaskjólum, skattaskjólum sem snúast um ekki aðeins að fara fram hjá skattalögum heldur að leyna eignarhaldi og stunda annars konar viðskiptahætti en við teljum eðlilegt, því að það eru margháttaðar ástæður fyrir því að fólk kýs að beina viðskiptum sínum í skattaskjól. Á því þarf að taka. Það þarf að sýna fram á að íslensk stjórnvöld séu reiðubúin til að taka þá baráttu alvarlega og sýna þar með í verki að við stöndum í sama hópi og önnur vestræn lýðræðisríki.

Hæstv. atvinnuvegaráðherra, verðandi forsætisráðherra, sagði hins vegar þegar hann var spurður að augljóslega væri talsvert flókið að eiga peninga á Íslandi, það væri ekkert að því að fólk væri efnað á Íslandi. Aðspurður hvort eðlilegt væri að eiga stórar upphæðir á Tortólu sagði hann hin fleygu orð: Einhvers staðar verða peningarnir að vera.

Herra forseti. Ætlar hæstv. forsætisráðherra að halda áfram að verja það, verja heimsmet Íslendinga í að geyma (Forseti hringir.) eignir sínar í skattaskjólum, eða eigum við von á því (Forseti hringir.) að hæstv. ríkisstjórn breyti um stefnu (Forseti hringir.) og taki upp einhverja baráttu í þessu máli og sé í takt við önnur vestræn ríki í þessu máli?