145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða stjórnvalda til skattaskjóla.

[11:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður misskildi mig. Ég var að segja að þar sem það er löglegt, samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlegum lögum, þegar menn fara að lögum og upplýsa um það og greiða sína skatta, þá er það verkefni okkar að fara yfir það hvort breyta þurfi þeim lögum. Við erum að vinna með alþjóðasamfélaginu í því að taka á þessum málum, að þarna séu ekki skattaskjól, að þarna geti fólk ekki falið fé. Það er mjög mikilvægt að við komum þeim skilaboðum skýrt héðan út að við stöndum saman um að allir eigi að standa skil á sínu til samfélagsins; að ekki eigi að leyna fé, hvað þá að stinga því undan á annan hátt.

Áðan var spurt hvað ég hefði meint með því að segja að það væri erfitt að eiga fé á Íslandi. Ég átti við í samfélaginu. Ég átti við það sem blasað hefur við lengi í íslensku samfélagi, það sem við erum að kljást við. Við þurfum (Forseti hringir.) að viðurkenna það að staða okkar er misjöfn. Við þurfum að tryggja meiri jöfnuð í samfélaginu. Við þurfum að tryggja að (Forseti hringir.) meiri jöfnuður sé í okkar samfélagi en flestum öðrum af því að við erum fá. Staðreyndin (Forseti hringir.) er sú að jöfnuður hefur farið vaxandi og hefur ekki verið meiri á Íslandi í mjög langan tíma.