145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

trúverðugleiki Íslands.

[11:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eftir hrunið 2008, efnahagshrunið fræga, beið orðstír Íslands mikinn skaða á alþjóðavettvangi. Mig langar að ræða við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra aðeins um það. Fyrir hrun töldu Íslendingar og margir erlendis að hér væri sérstök snilligáfa á ferð í fjármálum. Svo reyndist það auðvitað ekki tilfellið heldur þvert á móti. Þess vegna hef ég áhyggjur af trúverðugleika landsins á alþjóðavettvangi og velti fyrir mér forgangsröðun hæstv. ráðherra í því efni.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hversu mikils hann meti trúverðugleika Íslands og ríkisstjórnarinnar við hluti eins og sölu banka og afnám fjármagnshafta og öll þau verkefni sem hæstv. ríkisstjórn telur svo mikilvægt að hún sjálf standi að fyrir kosningar. Sömuleiðis langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að sá álitshnekkir sem Ísland hefur orðið fyrir í kjölfar þessa máls komi til með að þvælast fyrir þeim verkefnum og síðast en ekki síst hvað hæstv. ráðherra hyggist gera til þess að endurheimta og styðja við orðstír Íslands sem ábyrgs ríkis þegar kemur að fjármálum og þeim aðgerðum sem hæstv. ráðherra talar svo glaðlega um að þurfi að inna af hendi fyrir næstu kosningar.