145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

trúverðugleiki Íslands.

[11:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er spurt hversu mikils virði ég telji trúverðugleika Íslands. Ég tel í raun og veru ekki hægt að leggja neinn slíkan mælikvarða á hann. Einfalda svarið er þetta: Ég tel að trúverðugleiki sé gríðarlega mikils virði.

Það stendur ekki til að selja banka fyrir kosningar eins og hv. þingmaður virðist telja. Það er einfaldlega rangt.

Sú athygli sem við fáum núna frá alþjóðlegum fjölmiðlum er gríðarleg. Það er hægt að líta á hana sem ógn við trúverðugleika Íslands. Við getum líka skoðað stöðuna og hugsað með okkur: Hvernig getum við nýtt þetta sem tækifæri? Tækifæri til að minna á að við Íslendingar vorum fyrst meðal þjóða til að taka þátt í því að undirrita nýjan staðal OECD um sjálfvirk upplýsingaskipti um skattupplýsingar, að við höfum tekið þátt í því með hinum norrænu ríkjunum að gera 44 samninga við lágskattaríki á undanförnum árum um upplýsingaskipti samkvæmt beiðni skattyfirvalda, að við Íslendingar störfum samkvæmt CFC-reglum frá því fyrir nokkrum árum sem tryggja að það er enginn skattalegur ávinningur lengur fyrir fólk að vera með eignir sínar og tekjur á núllskattasvæðum. Við eyðum þeim ávinningi og við áskiljum okkur að skattleggja einstaklinga og fyrirtæki sem geyma eignir og tekjur á slíkum lágskattasvæðum með tiltekinni reiknireglu.

Þetta er tækifæri til að koma því á framfæri við þjóðina og við umheiminn að við Íslendingar höfum verið í sérstöku átaki til að eyða ávinningi af þessum svæðum.

Þess vegna er það ekki rétt sem hv. þingmaður og formaður Vinstri grænna sagði áðan, að við eigum að vera í sérstöku átaki til að eyða slíkum svæðum. Við erum búin að smíða okkar eigin verkfæri til að eyða ávinningnum af þeim. CFC-reglurnar sem síðasta ríkisstjórn setti beinlínis ganga út frá (Forseti hringir.) því að viðurkenna lögmæti félaga á þessum svæðum en tekur til baka allan ávinninginn af því, (Forseti hringir.) ekki allan ávinninginn kannski en bróðurpart ávinningsins af því að reyna að nýta þau.