145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

hagsmunaárekstrar.

[11:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ef hæstv. ráðherra telur að hann þurfi ekki að standa skil á sínum gjörðum frammi fyrir neinum öðrum en sjálfstæðismönnum (Gripið fram í.) þá er nú illa fyrir honum komið á þessum degi hér.

Ég vil segja að hæstv. ráðherra hefur talað um það áður í fjölmiðlum og annars staðar að mikilvæg verkefni séu fram undan. Sá sem á að leiða slík verkefni þarf að njóta trausts. Það gerir hæstv. ráðherra ekki. Svo einfalt er það. Það er eðlilegt að hann segi af sér og hleypi að einhverjum sem nýtur trausts.

Það hefur komið fram að við Íslendingar og ráðuneyti hæstv. ráðherra tökum þátt í alþjóðlegri baráttu gegn tilvist skattaskjóla. En enn þá talar ráðherrann eins og sú staðreynd að hann sjálfur tengist beint slíkri starfsemi sé eitthvað sem sé ásættanlegt. Slíkt væri ekki viðunandi í neinu vestrænu lýðræðisríki og á ekki að vera viðunandi á Íslandi.

Ráðherra fjármála og efnahagsmála, Bjarni Benediktsson, verður að segja af sér. Þetta blasir við. Af hverju skilur ráðherrann þetta ekki?