145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

trúverðugleiki ráðherra.

[11:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Sú leið sem er reynt að fara hér er sú að menn eins og hv. þingmaður koma hér upp og skilgreina fyrst vandamálið, þeir ætla að skilgreina vandamálið. Vandamálið í augum hv. þingmanns og margra annarra er það að vera í skjölunum.

Ég segi: Vandamálið er það fólk sem nýtir sér skattaskjól, fólk sem skýst undan samfélagslegri ábyrgð, það er vandamálið. (Gripið fram í.) Þannig er það. Þannig er það nú að þeir sem sjá ávinning fyrir sig eða sína flokka í því að blanda saman öllum þeim sem með einhverjum hætti tengjast þessum málum og svo hinum sem eru að svíkjast undan og öll barátta stjórnvalda snýst um, CFC-löggjöfin, upplýsingaskiptasamningarnir, samstarf okkar við Norðurlöndin, þessir 44 upplýsingaskiptasamningar sem við höfum gert — OECD-samvinnan, hún snýst um að ná í skottið í svikahröppunum. Um það snýst málið.

En ef hv. þingmaður telur að það sé glæpur að fara að lögum og reglum, jafnvel þeim sem sett eru hér í þessu þingi, eins og CFC-reglurnar eru til vitnis um, þá held ég að það verði aldrei góður skilningur á milli mín og hans. Þetta er vandamálið. Kannski tekur tíma fyrir þjóðina og einstaka þingmenn að gera þennan skilsmun, gera greinarmun á þessu tvennu. En þarna liggur svar mitt við því hvers vegna ég tel að enginn glæpur hafi verið unninn í því tilviki sem hann vísar til.