145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

trúverðugleiki ráðherra.

[11:49]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Eiga þá ekki bara allir Íslendingar að geyma peningana sína á Tortólu? (Gripið fram í: Nákvæmlega.)(Gripið fram í.) Er það ekki þá allt í lagi ef það er bara gert með heiðarlegum hætti, (Gripið fram í.) borgaðir skattar og gjöld af því? Það er enginn valkostur eftir í stöðunni eins og stjórnarflokkarnir setja þetta fram. (Gripið fram í.)

Það er enginn valkostur eftir fyrir Íslendinga annar en sá að fjölmenna á Austurvöll vegna þess að þessir flokkar munu ekkert skilja annað en ef fólk mætir hérna á Austurvöll og sýnir þeim að það er ekki tilbúið í þetta leikrit. Það tekur ekki þátt í þessu. Það er enginn valkostur eftir fyrir stjórnarandstöðuna annar en að segja við þessa stjórnarflokka: Það fara engin mál hér í gegnum þetta þing. Engin mál. Hvaða mál haldið þið að þið farið með í gegnum þetta þing hér? Ætlið þið að standa fyrir framan okkur, eins og í tröppum þinghússins í gær, og halda því fram að það verði haldnar kosningar eftir að þið hafið klárað ykkar þingmálalista? Í hvaða leikriti er hæstv. ráðherra staddur þegar hann heldur þessu fram? (Gripið fram í.)