145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

málefni tengd skattaskjólum.

[12:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef nú gaman af því þegar málsvörn hæstv. fjármálaráðherra er aðallega orðin CFC-reglurnar sem voru settar í tíð ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar undir minni forustu í fjármálaráðuneytinu. Og CFC-reglurnar sem sömu flokkar og nú eru við völd vanræktu að leiða í lög árum saman fyrir hrun, til stórkostlegs tjóns fyrir Ísland, hafandi þó um það tilmæli frá skattyfirvöldum og stjórnskipaðri nefnd að gera svo. Þannig að hæstv. ráðherra er á þunnum ís að hluta til í þessari málsvörn.

Í öðru lagi geri ég athugasemdir þegar hæstv. fjármálaráðherra segir að það sé rangt hjá formanni Vinstri grænna að hluti hinnar alþjóðlegu viðleitni til að berjast við skattaskjól sé að loka þeim, vegna þess að í yfirlýsingu Norðurlandanna og í vinnu norrænu ráðherranefndarinnar stendur beinlínis að hluti baráttunnar snúi að því að draga úr skaðlegri skattasamkeppni, „skadelig skattekonkurrence“ heitir það upp á dönsku. Af hverju? Vegna þess að undirboðin eru líka vandamál, sérstaklega frá sjónarhóli landa eins og Norðurlandanna sem þurfa öflugt skattkerfi til að standa undir sínu velferðarkerfi.

Svo hefði hæstv. fjármálaráðherra getað staðið sig betur í því að klára þá vinnu sem var langt komin að leiða í lög reglur um þunna eiginfjármögnun. Um það hefur hann fengið sérstök tilmæli frá efnahags- og viðskiptanefnd á þessu kjörtímabili en ekkert hefur gerst af hans hálfu í þrjú ár.

Spurningar mínar til hæstv. ráðherra snúa að því hvernig viðbrögð af okkar hálfu nú og í framhaldinu eru vænlegust til þess að lágmarka skaðann sem orðspor Íslands hefur hlotið á alþjóðavettvangi í boði þessarar ríkisstjórnar. Það hlýtur að vera viðfangsefnið að reyna að lágmarka skaðann, bæði sjálfra okkar vegna og út á við.

Í fyrsta lagi: Verður sett af stað á Íslandi viðamikil opinber rannsókn á þessu öllu eins og búið er að ákveða í öðrum löndum? Í öðru lagi: Verður Panama sett á lista Íslands yfir lágskattasvæði eins og Frakkar hafa ákveðið að gera? Í þriðja lagi: Verða embætti ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra (Forseti hringir.) efld með fjármunum og mannafla til að takast á við þessi mál? Í fjórða lagi: Verða málefni (Forseti hringir.) ráðherra og þingmanna og kjörinna fulltrúa, mögulega embættismanna, rannsökuð sérstaklega vegna trúnaðarbrotsins við almenning í landinu ef þeir eiga í hlut?