145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

málefni tengd skattaskjólum.

[12:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er rétt að blanda ekki saman um of umræðunni um skattasamkeppni og vandanum við lágskattasvæði sem eru nýtt í þeim tilgangi að fela eignatekjur, skattskyldan hagnað o.s.frv.

Ég held að ég og hv. þingmaður séum ekki á sama bát, séum ekki sammála um alþjóðlega skattasamkeppni, vegna þess að ég tel að hún geti verið af hinu góða. Írar eru til að mynda með 6,25% tekjuskatt á fyrirtæki sem stunda rannsóknir og þróun á Írlandi. Ég held að átak Norðurlandanna snúi ekki að því að uppræta slíka hluti. Það er nú bara það sem ég vildi segja um þann þátt málsins.

Varðandi skjölin að öðru leyti þá er ég þeirrar skoðunar að þetta mál í heild sinni geti leitt til mikilla framfara í löggjöf og regluverki. Við eigum að nýta tækifærið, sem þessar upplýsingar gefa okkur, til að gera nauðsynlegar breytingar í þeim efnum. Já, þá mun ég hlusta eftir kröfum og óskum þeirra stofnana sem fara með þessi verkefni á vegum okkar innan stjórnsýslunnar, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og annarra þeirra sem munu vinna úr upplýsingum af þessum toga.

Komi fram beiðnir um frekari lagabreytingar, ábendingar um alþjóðlega þróun sem við eigum að fylgja eftir eða um frekari fjárhagslegan stuðning, þá verður ekkert hik í mínu ráðuneyti að veita þann stuðning, ekki nokkurt. Það er í fullkomnu samræmi og í beinu framhaldi af því sem ég hef gert í tíð minni sem fjármálaráðherra; að undirrita þá staðla sem OECD hefur gefið út og við tókum þátt í sérstökum undirskriftarfundi í Berlín á árinu 2014 til að fylgja því máli eftir. Og það er líka í fullu samræmi við þær fjárveitingar sem ég hef barist fyrir í ríkisstjórn og hér á Alþingi til þessara mála sérstaklega.