145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða ráðherra til skattaskjóla og afsökunarbeiðni.

[12:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Afstaða formanns Sjálfstæðisflokksins til aflandseyja þarf ekki að koma á óvart. En það kemur sannarlega á óvart að nýr tilvonandi forsætisráðherra Framsóknarflokksins segi að það sé bara allt í lagi að eiga fjármuni á Tortólu og öðrum aflandseyjum. Ég hélt satt að segja að Framsóknarflokkurinn væri ósáttur við það og þess vegna hefði hæstv. forsætisráðherra sagt af sér. Við hljótum að spyrja: Er það stefna Framsóknarflokksins að það sé bara allt í lagi að geyma peningana sína á aflandseyjum? Finnst Framsóknarflokknum allt í lagi með aflandseyjar? Eru þingmenn Framsóknarflokksins hér í salnum sammála tilvonandi forsætisráðherra um það að ekkert athugavert sé við það að geyma peningana sína á Tortólu? Eða eru þeir ósáttir við það (Forseti hringir.) að menn leiti slíkrar undankomu með fjármuni sína sem það er að vista þá á aflandseyjum?