145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða ráðherra til skattaskjóla og afsökunarbeiðni.

[12:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég verð að taka undir það með félögum mínum að það var dapurlegt að upplifa viðbrögð talsmanna ríkisstjórnarflokkanna hér áðan, þar á meðal tilvonandi hæstv. forsætisráðherra.

Það var enginn auðmýkt, engin. Það var ekki beðist afsökunar, ekki einu sinni mildilega afsökunar á einu eða neinu. Það má kannski segja að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafi verið í aðeins betra skapi í dag en hann var í stiganum í gærkvöldi en þó munaði ekki miklu.

Þetta mál verður greinilega að ræða miklu, miklu betur. Viðbrögð Íslands núna skipta miklu máli. Eftir þau áföll sem við höfum fengið á okkur undanfarna daga verður að reyna að takast á við það af einurð að koma jákvæðum skilaboðum til umheimsins um hvernig Ísland ætlar að taka sómasamlega á þessu.

Herra forseti. Ég fer fram á sérstaka umræðu um þetta viðfangsefni. Við höfum allt of stuttan tíma í dag til að ræða þetta grafalvarlega mál og sú umræða þarf að fara fram strax af því að ríkisstjórnin er greinilega með hugann einhvers staðar annars staðar, við að hanga á völdunum, við að komast áfram í stóla. En það verður að (Forseti hringir.) leggja upp vandaða aðgerðaáætlun fyrir Ísland um það hvernig við tökumst á við þá stöðu sem nú er upp komin.