145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða ráðherra til skattaskjóla og afsökunarbeiðni.

[12:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í gær var beðið eftir því fram eftir kvöldi að einhverjar tilkynningar kæmu fram. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra stóð keikur en á sama tíma kófsveittur og mjög vanstilltur og sagði: Það eru 38 atkvæði á bak við þetta. Tillaga um vantraust verður felld.

Ég ætla að vona að þeir þingmenn úr meiri hlutanum sem tjá sig hér í dag og eru alls ekki sáttir styðji vantraust, þannig að við getum boðað til kosninga.

Hann hótaði stjórnarandstöðunni, það er bara þannig. Hann getur ekki vikist undan því. Hann hefur sagt þjóðinni stríð á hendur. Hann er í stríði við þjóð sína sem stendur úti á Austurvelli dag eftir dag.

Ríkisstjórnin hefur yfirbragð spillingar. Það er þannig hvort sem Bjarna Benediktssyni finnst eitthvað um það eða ekki. Og hæstv. forsætisráðherra, sem enn er starfandi, ætlar að sitja áfram sem þingmaður.

Virðulegi forseti. Hvernig er hægt (Forseti hringir.) ef maður er í þessum skjölum og hættir (Forseti hringir.) að vera forsætisráðherra að ætla að halda áfram að sitja sem þingmaður? Bjarni Benediktsson svaraði því ekki heldur áðan. (Forseti hringir.) Ætlar hann að standa fyrir því að ráðamenn þjóðarinnar (Forseti hringir.) verði rannsakaðir (Forseti hringir.) í gegnum þessi Panama-skjöl?