145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða ráðherra til skattaskjóla og afsökunarbeiðni.

[12:22]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég velti því fyrir mér hvað mönnum gengur til með þessum stólaskiptum þegar auðmýktin og eftirsjáin er engin. Bara engin. Það kom fram í umræðunni áðan. Það er algjörlega ljóst að menn eru búnir að ákveða að ætla að fara í einhvern réttlætingarleiðangur, taka einn karl úr þessu sæti og setja hann út í sal og gera hann að skuggastjórnanda ríkisstjórnarinnar, en að öðru leyti er ekkert breytt. Viðhorfin eru þau sömu. Það er ákveðinn vandi sem blasir við okkur. Ég er ekki viss um að þing geti starfað áfram með þeim hætti og með þeirri óánægju sem er hér fyrir utan og með augu heimspressunnar á okkur.

Virðulegi forseti. Því er haldið fram að það sé munur, maður geti gert greinarmun á fólki og það sé svona fólk og svona fólk, A- og B-fólk, sem fari með peninga í skattaskjól. Það má vel vera. En staðreyndin er sú að sönnunarbyrðin liggur alltaf hjá þeim sem gera það að sýna fram á hvort þeir hafi greitt sína skatta eða ekki. Mér finnst spurning (Forseti hringir.) hv. þm. Róberts Marshalls um það af hverju við förum við ekki bara öll þangað réttmæt, hún er réttmæt vegna þess að hvað haldið þið að (Forseti hringir.) mundi gerast fyrir íslenskt efnahagslíf ef allir peningarnir færu til Tortólu?