145. löggjafarþing — 94. fundur,  8. apr. 2016.

breytingar á ríkisstjórn.

[10:03]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mun gera grein fyrir stefnu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem tók við á ríkisráðsfundi síðdegis í gær. Ríkisstjórnarskiptin áttu sér stuttan aðdraganda sem alþekkt er og óþarfi að tíunda hér. Við þær óvenjulegu aðstæður sem sköpuðust og leiddu að lokum til þess að forsætisráðherra baðst lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína er fátt annað sem kemst að í þjóðfélagsumræðunni og erfitt getur reynst að horfa fram á veg. Við þurfum hins vegar einmitt á því að halda að horfa fram á veginn, læra af því sem gerst hefur og ljúka þeim mikilvægu málum sem langt eru komin. Jörðin heldur áfram að snúast og ríkisstjórnin þarf að sinna mikilvægum verkum sem þola ekki bið.

Ríkisstjórn Íslands mun byggja starf sitt á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá 22. maí 2013. Í henni segir að leiðarljós ríkisstjórnarinnar sé bættur hagur heimilanna í landinu og efling atvinnulífs með aukinni verðmætasköpun í þágu almannahags. Efnahagsmál í breiðum skilningi eru lykilmál nýrrar ríkisstjórnar. Eins og segir í stefnuyfirlýsingunni frá 2013 er ábyrg efnahagsstjórn forsenda velferðar, öflugs heilbrigðis- og menntakerfis, löggæslu og annarrar grunnþjónustu. Jafnframt segir að agi og jafnvægi í ríkisfjármálum gegni lykilhlutverki til að tryggja stöðugleika, lægri vexti og litla verðbólgu.

Hvernig hefur svo tekist til? Svarið er einfalt. Það hefur tekist einstaklega vel til. Það árar vel til sjávar og sveita. Hagkerfið stendur í blóma, kaupmáttur vex hröðum skrefum og verðbólga hefur í meira en tvö ár verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Mikill afgangur er á ríkissjóði, skuldir ríkisins lækka hratt og erlend staða þjóðarbúsins hefur aldrei verið betri. Aldrei. Stöðugleikaframlögin leiddu til þess að fjárlög þessa árs voru afgreidd með um 350 milljarða kr. afgangi. Ef nefna ætti eitthvað eitt sem lýsir best árangri ríkisstjórnarinnar er það kaupmáttur launa. Hann hefur aukist um 18% frá maí 2013, þar af um rúmlega 10% undanfarna 12 mánuði. Þetta er fáheyrður árangur í alþjóðlegu samhengi og til viðbótar er gert ráð fyrir að kaupmáttur aukist um tæp 10% á yfirstandandi ári.

Ríkisstjórnin sem mynduð var árið 2013 setti tvö mál á oddinn í stefnuyfirlýsingu sinni, annars vegar leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar lausn á málum slitabúa föllnu bankanna til að greiða fyrir losun fjármagnshafta. Ríkisstjórnin sigldi báðum þessum málum farsællega í höfn. Leiðréttingin var svar við sterku ákalli almennings um höfuðstólslækkun lána vegna hinnar einstöku stöðu sem hafði skapast þegar lán hækkuðu á sama tíma og fasteignaverð lækkaði. Aðgerðin tókst vel og var fjármögnuð með skatti á kröfuhafa bankanna í gegnum ríkissjóð.

Lausn á málum slitabúa mun leiða til um 500 milljarða kr. betri stöðu ríkissjóðs auk margvíslegra annarra jákvæðra þjóðhagslegra þátta. Engin dómsmál eru í gangi eða eru fyrirsjáanleg gegn ríkinu vegna lausnar á málum slitabúanna. Lánshæfi ríkisins og fyrirtækja hefur verið hækkað vegna aðgerðanna og árangurs þeirra sem Lee Buchheit segir einstakan í fjármálasögu heimsins.

Ég vil staldra lengur við haftalosunina, þetta aðalverkefni ríkisstjórnarinnar. Meginstefið í þeirri vinnu hefur verið að leysa greiðslujafnaðarvanda landsins þannig að unnt verði að aflétta fjármagnshöftum án óásættanlegrar áhættu á þjóðhags- og fjármálastöðugleika.

Lausnin varð að tryggja að gengi krónunnar félli ekki, að alþjóðlegar skuldbindingar væru virtar, að aðgengi íslenskra fyrirtækja að erlendum mörkuðum yrði ekki lakara og að áhætta í ríkisfjármálum yrði takmörkuð. Lausnin sem náðist í fyrra er einmitt sniðin að því markmiði að leysa greiðslujafnaðarvandann. Með henni er komið í veg fyrir að slitabúin orsaki gengisfall krónunnar og skerði lífskjör. Skuldir ríkisins lækka verulega og gjaldeyrisvaraforðinn stækkar. Erlend staða þjóðarbúsins er nú sú hagstæðasta í rúma hálfa öld, 50 ár. Hagur þjóðarbúsins vænkast hins vegar mun meira en sem nemur greiðslum í ríkissjóð. Bönkum er tryggð erlend fjármögnun til langs tíma sem veitir íslenskum fyrirtækjum greiðari aðgang að erlendu lánsfé og styður við uppbyggingu í atvinnulífinu. Þessi jákvæðu áhrif á hagkerfið hafa nú þegar komið fram með hækkun á lánshæfismati og almennt meira trausti á hagkerfinu.

Þessi niðurstaða er farsæl fyrir okkur Íslendinga og skiptir sköpum fyrir efnahagslega framtíð landsins. Þessi leið er til muna hagstæðari fyrir Ísland en þær hugmyndir um nauðasamninga sem tókst að stöðva árið 2012. Þá má ekki gleyma þeim þjóðhagslega ávinningi sem fólst í því að Icesave-samningarnir náðu ekki fram að ganga — árið 2009, árið 2010 og árið 2011. Það liggur fyrir greinargott mat á kostnaði íslenskra skattgreiðenda við Icesave-samningana sem Alþingi samþykkti árið 2009. Vaxtakostnaðurinn á árunum 2017–2024 hefði numið 26 milljörðum kr. á ári, eða alls 208 milljörðum. Það er gott að ylja sér við það, við gerð fimm ára fjármálaáætlunar hins opinbera, að ríkið kemur ekki til með greiða 26 milljarða í erlendum gjaldeyri í vexti til Breta og Hollendinga á hverju ári næstu átta árin.

Höftin voru ill nauðsyn á sínum tíma. Skaðsemi þeirra er hins vegar veruleg. Það er sama hvort fyrirtæki er á sprotastigi, í hröðum vexti eða fullskapað; fjármagnshöftin hefta vöxt þess og viðgang í erlendri samkeppni. Verð á mörkuðum bjagast vegna haftanna. Við verðum því að nota tækifærið sem nú hefur skapast til að fara í aflandskrónuútboð í vor og losa í framhaldinu höftin á einstaklinga og fyrirtæki. Það er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar.

Annað mikilvægt mál sem ræða þarf ítarlega á Alþingi er húsnæðismálin. Fjögur frumvörp um húsnæðismál sem unnin voru í sátt við aðila vinnumarkaðarins eru í þinglegri meðferð. Af umsögnum hagsmunaaðila og ummælum þingmanna að dæma er góður stuðningur við málin á Alþingi þótt flestir telji einhverra breytinga þörf. Frumvörpin eru ekki síst komin fram vegna bágrar stöðu margra leigjenda og erfiðleika tekjulágs fólks við að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Frumvörpin munu leysa úr brýnni þörf. Þau fjölga valkostum í húsnæðismálum, enda ber að styðja bæði við þá sem vilja eignast húsnæði og þá sem kjósa sér annað fyrirkomulag. Afar jákvætt er að sjá fréttir um að hlutur fyrstu íbúðarkaupenda sem hlutfall af öllum íbúðarkaupendum fer stækkandi.

Önnur þingmál sem varða húsnæðismarkaðinn eru langt komin í vinnslu í samræmi við skýrslu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála. Þá er einnig unnið að verðtryggingarmálum í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Allt stefnir því í að miklar og jákvæðar breytingar verði á húsnæðismarkaði.

Endurbætur á fjármálakerfinu og fyrirkomulag á bankastarfsemi eru nátengd þessu. Stærð bankanna er orðin slík að hún setur sölu þeirra skorður. Sala á hlut ríkisins í bönkunum mun taka langan tíma enda liggur ekki lífið á. Þegar að sölunni kemur skiptir mestu máli að standa vel að henni, líkt og tókst svo vel til með samstilltum aðgerðum við lausn á málefnum slitabúanna.

Jafnframt þessu þarf að svara lykilspurningum. Ætla stjórnvöld að stefna að dreifðri eignaraðild? Já, dreift eignarhald væri æskilegt. Munu stjórnvöld beita sér fyrir aukinni samkeppni á bankamarkaði? Já, stjórnvöld munu þurfa að huga að leiðum til aukinnar samkeppni. Munu stjórnvöld beita sér fyrir aðskilnaði viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi? Mögulega, ef slíkt reynist fýsilegt og tæknilega framkvæmanlegt. Ætla stjórnvöld að sameina banka? Ólíklegt, enda mundi slíkt tæpast samrýmast framkvæmd samkeppnislaga.

Við verðum að svara þessum spurningum og fleirum og megum ekki vera hrædd við að taka umræðuna á þessum tímapunkti. Nú er einfaldlega rétti tíminn til að taka hana.

Til viðbótar við þetta er engin þolinmæði í samfélaginu gagnvart mistökum við sölu og skráningu fyrirtækja. Borgunarmálið og Símamálið hafa vakið hneykslun. Mér skilst að bankar hafi komið að sölu margra fyrirtækja á undanförnum árum með ágætum árangri, fyrirtæki hafi verið seld í opnu ferli án ágreinings og eftirmála. Er það vel, en það er einfaldlega ekkert þol fyrir mistökum og á ekki að vera það. Hertar reglur um armslengdarsjónarmið koma í veg fyrir beina aðkomu ríkisstjórnar að málum sem þessum en þær skyldur hvíla á þar til bærum stjórnvöldum, þingnefndum og eftirlitsaðilum að rannsaka slík mál ofan í kjölinn.

Virðulegi forseti. Engum blöðum er um það að fletta að góð heilbrigðisþjónusta er þjóðinni lífsnauðsynleg. Ég tel að í þjóðfélaginu ríki sátt um mikilvægi þess að hlúa að heilbrigðiskerfinu. Nýleg undirskriftasöfnun endurspeglar vilja borgaranna til endurbóta. Hins vegar skiptir máli hvernig að þeim er staðið. Ríkisstjórnin hefur aukið fjármagn á föstu verði til heilbrigðismála í öllum þrennum fjárlögunum sem hún hefur staðið að. Við munum að sjálfsögðu halda áfram að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar, nú þegar tekist hefur að minnka skuldir ríkissjóðs og lækka vaxtakostnað. En ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir því að áskorunum í heilbrigðisþjónustu verður ekki mætt með auknum fjármunum eingöngu. Kappkosta verður að hámarka nýtingu fjármagnsins og auka skilvirkni og gæði. Uppbygging heilbrigðiskerfisins er augljóslega langtímaverkefni og verður ekki leyst í eitt skipti fyrir öll á einu kjörtímabili.

Góðir Íslendingar. Ríkisstjórnin byggir stefnu sína á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá 2013. Megináhersla verður lögð á losun hafta, efnahagslegan stöðugleika, heilbrigðismál og húsnæðismál, sérstaklega húsnæðismál ungs fólks og verðtryggingu.

Við Íslendingar erum í góðri stöðu. Sóknarfærin eru mýmörg. Við höfum séð byltingu í virðisaukandi vinnslu sjávarafurða, uppbygging ferðaþjónustu hefur verið án fordæma, tækifæri til aukinnar arðsemi í orkunýtingu eru fyrir hendi og fjölmörg íslensk fyrirtæki í alþjóðageiranum hafa staðið sig afar vel.

Til framtíðar skiptir öllu máli að skapa verðmæti. Við sköpum verðmæti með ýmsum hætti, með því að auka eða bæta framleiðslu og með því að lækka kostnað eða með því að skipta illa reknum fyrirtækjum út fyrir vel rekin. Aukin verðmætasköpun er forsenda fyrir vexti samneyslunnar, stöðugri atvinnu og aukinni hagsæld fólksins í landinu. Það segir sig í raun sjálft en þó virðist alltaf þörf á að ítreka þá augljósu staðreynd.

Við megum ekki við því að verðmætasköpun sé litin hornauga. Tækifærin eru mýmörg eins og ég hef rakið hér og við þurfum að nýta þau.