145. löggjafarþing — 94. fundur,  8. apr. 2016.

breytingar á ríkisstjórn.

[10:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Góðir Íslendingar. Trúnaðarrof hefur orðið í samfélagi okkar. Hér hefur orðið ákall eftir því að kosið verði strax. Hvernig bregst ríkisstjórnin við því? Hún bregst við með því að skipta um stóla en það er engin breyting, engin breyting á stefnu og engin breyting á nálgun. Við heyrum það hjá nýjum hæstv. forsætisráðherra að keyra á sama prógramm og fráfarandi ríkisstjórn keyrði, ekki á að gera neinar breytingar og að ástæðan fyrir því að menn treysta sér ekki í kosningar strax sé vegna þess að þeir einir geti siglt mikilvægum málum í höfn.

Förum aðeins yfir þau mál sem hæstv. forsætisráðherra nefndi. Í fyrsta lagi eru það haftamálin. Verið er að fylgja sömu stefnu og fylgt var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það er sátt um þessa stefnu. Það geta allir flokkar á Alþingi haldið áfram með losun hafta. Um húsnæðismálin. Hverjir deila helst á húsnæðismálin og húsnæðisstefnu þessarar ríkisstjórnar? Eru það ekki sjálfstæðismenn hér í salnum? Engir aðrir flokkar deila á þá stefnu. Allir aðrir flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn gætu mjög auðveldlega farið hér í gegn með öflugan húsnæðispakka. Tökum svo fyrir heilbrigðismálin. Það er alger samstaða um þau. Að halda því fram að þessir tveir stjórnmálaflokkar þurfi að vera uppi á dekki til að vinna þessum málum framgöngu er í besta falli blekking og yfirklór. Það sem menn eru að gera hér er að gera allt sem þeir geta til að halda völdum.

Við þurfum öll og þráum öll ró og festu í líf okkar og samfélag. Við fáum ekki ró og festu með því að reka ítrekað fleyg á milli þeirra efnameiri og efnaminni eins og ríkisstjórnin hefur gert. Það er öllu heldur sú stefna að reyna að skapa aukinn jöfnuð í eignum og tekjum sem mun skapa ró og festu í samfélaginu. OECD hefur tekið saman rannsókn og skýrslu um það með hvaða hætti menn hefðu getað stækkað kökuna í Bretlandi með því að tryggja þar aukinn jöfnuð og minnka stéttaskiptingu. Kakan í Bretlandi gæti verið 20% stærri ef menn hefðu tryggt þar aukinn jöfnuð í stað þess að ala á stéttaskiptingunni sem þar þekkist.

Virðulegi forseti. Kæru Íslendingar. Menn skapa heldur ekki ró og festu með því að ýta undir þá þjóðaríþrótt sem þekkst hefur á Íslandi, að hleypa ákveðnum hópum alltaf í einhverja sérstaka aðstöðu til að efnast stórkostlega. Þetta sjáum við aftur og aftur. Draga má þá ályktun að fordæmið finnist í því hvernig útdeiling auðlinda hefur átt sér stað hér á landi. Svo sjáum við þetta í viðskiptalífinu og í samfélaginu öllu. Þetta skapar ekki ró og festu. Þetta heldur áfram að reka hér fleyga. Við þurfum miklu frekar á því að halda að leikreglur séu skýrar, almennar leikreglur sem allir fylgja, líka stjórnmálamenn, allir. Það sé fyrirsjáanleiki og allt saman uppi á borðum og gagnsæi sé lykillinn í öllum ákvarðanatökum og öllum okkar athöfnum.

Góðir Íslendingar. Við höfum líka séð í því máli sem hér hefur verið helst til umræðu á undanförnum dögum og hefur valdið því trúnaðarrofi sem hefur orðið millum stjórnmálamanna og fólksins í landinu að hæstv. forsætisráðherra, nýtekinn við, telur ekkert að því að fólk geymi peninga erlendis. Slíkt viðhorf skapar ekki ró og festu. Það viðhorf heldur áfram að kynda undir reiðinni í samfélaginu og heldur áfram að kynda undir ófriðarbálinu sem er orðið heimsþekkt. Það er nefnilega þannig að við Íslendingar búum við þá stöðu að hér eru stjórnvöld í landinu sem telja það allt í lagi að lítill hópur einstaklinga eigi megnið af fjármununum og fari bara með það erlendis og sauðsvartur almúginn og litlu og meðalstóru fyrirtækin sjái um að reka efnahagslífið. Þessi ríkisstjórn telur líka eðlilegt að sauðsvartur almúginn, litlu fyrirtækin og meðalstóru fyrirtækin sjái um að reka krónuhagkerfið á meðan þeir sem eiga mikið fé geti geymt fé sitt erlendis. Stóru fyrirtækin starfa auðvitað í alþjóðlegu umhverfi og nota aðra gjaldmiðla sem eru þar gjaldgengir. En það er allt í lagi að telja okkur hinum trú um að við eigum að nota krónuna áfram. Sú peningastefna sem hér hefur verið rekin, ekki hefur verið komið með neina sýn á það með hvaða hætti menn ætla að gera breytingar á henni inn í langa framtíð. Það er vegna þess að undir þessu öllu eru þau viðhorf að það sé allt í lagi að tvær þjóðir séu í landinu, ein sem fjármagnar sig á alþjóðlegum mörkuðum og önnur, þ.e. almenningur, sem þarf að fjármagna sig með rándýrri, íslenskri verðtryggðri krónu. Svo segir hæstv. forsætisráðherra í ræðu sinni að þeir ætli að taka á verðtryggingunni. Hefur einhver heyrt annan eins brandara í langan tíma? Hverjir eru það sem hafa stigið fram og sagt: Verðtrygging verður ekki afnumin? Er það ekki samstarfsflokkur hæstv. forsætisráðherra, Sjálfstæðisflokkurinn? Hvað er forsætisráðherra að fara þegar hann heldur því fram að hér eigi að taka á verðtryggingunni? Að það eigi að halda áfram að ræða þetta? Þetta eigi að standa á blaði? Menn eru ekki að fara að gera neitt. Þetta viðhorf skapar ekki ró og festu í samfélaginu, að halda að menn geti bara staðið hér og sagt eitthvað og gert svo eitthvað allt annað. Við erum komin með nóg af því.

Þá verð ég líka að nefna heilbrigðismálin. Það skapar ekki ró og festu í samfélagi okkar að taka þannig á málum að við séum með forsætisráðherra, eins og þann fráfarandi, sem ákveður að það besta í stöðunni, þegar hefur verið að molna undan heilbrigðiskerfinu á þessu kjörtímabili, sé að fara að munnhöggvast við fólk sem hefur á því skoðun, eins og gerðist milli hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Kára Stefánssonar. Það var til skammar. Það var ekki til þess að skapa ró og festu. Það sem skapar ró og festu er að taka utan um málaflokkinn þverfaglega, þverpólitískt, búa til stefnu til lengri tíma um það hvernig við byggjum heilbrigðiskerfið upp í sátt og samlyndi. Búum til áætlun sem byggir heilbrigðiskerfið upp þar sem við höfum ákveðið með hvaða hætti við ætlum að fjármagna og byggja nýjan Landspítala, með hvaða hætti við ætlum að tryggja það að hér sé öflugt þjóðarsjúkrahús, með hvaða hætti við ætlum að tryggja að gjaldfrelsi verði í heilbrigðismálum. Það er verkefnið. Ekki að munnhöggvast við þá sem hafa skoðun á stjórnvaldsaðgerðum.

Góðir Íslendingar. Það skapar heldur ekki ró og festu að stíga fram eins og nýr forsætisráðherra gerði í gær og segja okkur að eingöngu eigi að skipta um nokkra stóla en það eigi ekki að breyta neinu. Það sé allt í lagi að menn geymi peninga í skattaskjólum, bara ef þeir gefa þá upp. Það er ekki nóg fyrir mig. Það er ekki nóg fyrir okkur í Samfylkingunni og ég veit að það er ekki nóg fyrir nokkurn mann hér inni heldur. Við þurfum meira. Við sem erum hér inni eigum þess vegna að taka undir það ákall um kosningar strax, ganga héðan út og sækja okkur öll nýtt umboð, vegna þess að hér þarf að skapa aftur traust og trúnað í samfélagi okkar.